PensionPro.is - Óháð upplýsingaveita

Um PensionPro

Um þennan vef

Vefur þessi, PensionPro.is, er sjálfstætt framtak ráðgjafafyrirtækisins Verdicta.is og hefur þann tilgang að auka upplýsingagjöf í lífeyrismálum landsmanna, bæði með fyrirtæki og almenning í huga. Þeir sem standa að baki verkefninu um þennan vef eru óháðir öllum aðilum á lífeyrismarkaði. Vinnusamband hefur verið, af og til, á milli ráðgjafa Verdicta og allmargra lífeyrissjóða, bæði sameignarsjóða og séreignasjóða en það hefur ávallt verið í formi hlutlausrar og óháðrar ráðgjafar og eru engar skuldbindingar eða hagsmunir þar í millum.

Umfjöllun um lífeyrismál í Silfrinu:

Umfjöllun í fréttum RUV:

Umfjöllun í Kastljósi:

Um forsendur og aðferðafræði sem liggur að baki birtingu gagna:

Í grunninn eru útreikningar byggðir á gögnum frá FME, ársreikningum sjóða og öðrum skyldum gögnum. Þetta eru gögn sem sjóðirnir sjálfir hafa afhent FME skv. lögum um starfsemi fjármálafyrirtækja. Töluverð úrvinnsla hefur farið fram á gögnunum og hefur í því sambandi verið stuðst við niðurstöður vísindagreina sem birtst hafa m.a. í Tímariti um viðskipti og efnahagsmál, m.a. grein Dr. Gylfa Magnússonar „Ávöxtun og áhætta íslenskra lífeyrissjóða 1993- 2017“ o.fl. greinar.

Ef upp koma innsláttarvillur eða önnur sambærileg tilvik, þar sem tölur hafa hliðrast og kallað fram skekkju í niðurstöðum þá verður slíkt lagfært og uppfærðar niðurstöður uppfærðar eins fljótt og auðið er. Þegar unnið er úr mörgum mismunandi gagnasettum, sem ekki liggja miðlægt, þá þarf alltaf nokkra handavinnu til að kalla fram heildarmynd en slíkt skapar aftur á móti ákveðna hættu á hliðrun gagna og þar með gæti verið möguleiki á gagnavillum í einhverjum tilvikum.

Sætum sjóða í yfirliti er raðað eftir ávöxtun. Fyrir sjóði með jafna ávöxtun kunna að finnast tilvik þar sem þeir eru settir í sæti, hver á eftir öðrum, án þess að númer sæta gefi til kynna jafna stöðu sjóða. Sumir sjóðir ná ekki yfir allt tímabilið 1997-2016, mest megnis vegna þess að starfsemi allra sjóða var ekki hafin 1997. Aldur starfsemi sjóðanna er því ekki alltaf 20 ár þó að þannig sé það fyrir flesta sjóði.

Raunávöxtun er reiknuð skv. jöfnunni:

þar sem t = tími, r = ávöxtun, W = hrein eign, I = iðgjöld og P = verðlag.

Þegar talað er um „núverandi sjóði og forvera,“ á þessum upplýsingavef, þá er búið að taka tillit til sameininga þeirra sjóða sem nú starfa sem lífeyrissjóðir, hvort sem þeir eru opnir öllum eður ei. Ekki er endilega alltaf skynsamlegt að fjárfesta í sjóðum sem hafa hækkað mest því það að skila góðri ávöxtun í fortíð kann í einhverjum tilfellum að vera vísbending um að hækkanir orðið takmarkaðar í framtíðinni. Að kaupa eignir sem hafa hækkað mikið og selja þær sem hafa lækkað er fjárfestingastefna sem yfirleitt er erfitt að mæla með.

Rétt er að hafa þann almenna fyrirvara að ávöxtun er í eðli sínu slembin og getur farið að töluverðu leyti eftir tilviljunum og heppni eða óheppni. Það er ekki sjálfgefið að sjóður sem hefur skilað góðri ávöxtun í fortíð geri það einnig í framtíð. Stundum er það meira að segja öfugt.

Ávöxtun er ekki eini mælikvarðinn á stöðu lífeyris við starfslok en er þó mikilvægasti mælikvarðinn. Fleira skiptir þó máli, eins og að sumir sjóðanna verja hluta skylduiðgjalds í séreign og hefur það áhrif á stöðu hvers og eins við starfslok. Fyrir sjóði sem slíkt gera, er skynsamlegt að skoða bæði ávöxtun sameignar- og séreignasjóða.

Tölurnar á þessum vef fyrir sameign taka þannig ekki tillit til ávöxtunar á þeim hluta skylduiðgjaldsins sem varið er í séreign, en oft er munur á ávöxtun í séreign og sameign. Munur getur verið á markaðsvirði eigna og bókfærðu virði hjá sumum sjóðum. Margfeldismeðaltal er birt í sitthvorri töflunni fyrir markaðsvirði annars vegar og bókfært virði hinsvegar. Hér er miðað við bókfært virði sem meginreglu þótt hitt sér birt líka. Það getur þannig farið eftir vali á virðisreikningi hver röð sjóða verður að lokum.

Það fæst aðeins annað mat með því að reikna ávöxtun út frá daglegu gengi en hér er reiknað út frá árstölum. Daglegt gengi er hins vegar ekki reiknað nema fyrir tiltölulega fáa sjóði og því er ekki byggt á því hér. Miðað er við ávöxtun sjóða og forvera, þannig að slæmur árangur tiltekinna forvera dregur suma sjóðina niður eðli málsins samkvæmt. Ekki er því hægt að álykta að neikvæð staða tiltekinna sjóða nú sé ávísun á neikvæða stöðu síðar meir. Ekki er heldur hægt að draga ályktanir um núverandi stjórnendur lífeyrissjóða, ef tiltekinn sjóður er neðarlega, einkum ef um er að ræða gamlar sameiningar sem dregið hafa ávöxtunartölur niður. Athuga þarf einnig, þegar sjóðir eru metnir, að það eru ekki allir sjóðir opnir fyrir nýjum félags-mönnum og einnig það að sumir sjóðir starfa aðeins fyrir félagsmenn sem uppfylla ákveðin skilyrði. Hvað þetta varðar þá eru til alveg opnir sjóðir, alveg lokaðir og svo þeir sjóðir sem eru opnir að undangengnum skilyrðum s.s. tiltekinni félagsaðild launþegasamtaka.

Nánari fyrirvarar:

1) Ávöxtun í for­tíð er ekki endi­lega vís­bend­ing á ávöxtun í fram­tíð.

2) Ávöxtun er ekki eini mæli­kvarð­inn á stöðu líf­eyris við starfs­lok en er þó mik­il­væg­asti mæli­kvarð­inn. Fleira skiptir þó máli, eins og að sumir sjóðir stækka sér­eign með því að setja hluta sam­eignar í sér­eign og það hefur áhrif á stöðu hvers og eins við starfs­lok. Töl­ur sem birtar eru á vefnum PensionPro taka ekki til­lit til ávöxt­unar á þeim hluta skyldu­ið­gjalds­ins sem varið er í sér­eign, en ávöxtun kann stundum að vera hærri í sér­eign en í sam­eign.

3) Munur getur verið á mark­aðsvirði eigna og bók­færðu virði hjá sumum sjóð­um. Þar sem FME leggur áherslu á marg­feld­is­með­al­tal á bók­færðu verði eigna þá er lögð áhersla á slíka birtingu á þessum vef þó að markaðsvirði eigna sé líka birt sem niðurstaða.

4) Það fæst aðeins annað mat með því að reikna ávöxtun út frá dag­legu gengi en hér er reiknað út frá árs­töl­um. Dag­legt gengi er hins vegar ekki reiknað nema fyrir til­tölu­lega fáa sjóði og því er ekki hægt að byggja á því hér.

5) Á þessum vef er miðað við ávöxtun sjóðs og for­vera hans, þannig að slæmur árangur til­tek­inna for­vera dregur suma sjóð­ina niður eðli máls­ins sam­kvæmt. Í einhverjum tilvikum kunna slík tilvik um slakan árangur að vera mjög afmarkað og gefa þá ekki skýra mynd af núverandi og væntanlegri stöðu sjóða.

6) Að auki er rétt að hafa þann almenna fyr­ir­vara að ávöxtun er í eðli sínu slembin og getur að einhverju leyti farið eftir til­vilj­unum og heppni eða óheppni.